Stjórnarformaður Icelandair segist undrast það ef samgönguyfirvöld ætli nú að hygla útvöldum aðilum til að reyna sig í samkeppni við Flugfélag Íslands. Hann benti á nýlegar fréttir um að hið opinbera hyggist reisa bráðabirgða flugstöð á Reykjavíkurflugvelli til afnota fyrir Iceland Express og verja til þess hundruðum milljóna af skattpeningum almennings. ,,Margir hafa um árin reynt fyrir sér í innanlandsflugi og flestir stoppað stutt við ef frá er talið Flugfélag Íslands sem hefur þjónað landsmönnum frábærlega vel í áratugi," sagði Gunnlaugur.

,,Það er auðvelt að tala digurbarkalega um samkeppni þegar hægt er að velta áhættunni á ríkissjóð," sagði Gunnlaugur M. Sigmundsson, stjórnarformaður Icelandair á aðalfundi félagsins sem hófst fyrir skömmu.

Gunnlaugur benti á í ræðu sinni að á Reykjavíkurflugvelli sé eina einkarekna flugstöð landsins en starfsemi Flugfélags Íslands er í gömlu húsnæði sem er eign félagsins. Um þá flugstöð fara árlega yfir 430.000 farþegar og er aðstaðan erfið til að afgreiða svo marga farþega, en farþegum í innanlandsflugi hefur fjölgað um 50% á liðnum 5 árum. Til samanburðar nefndi Gunnlaugur Flugstöð Leifs Eiríkssonar en 500.000 farþegar fóru um þá flugstöð í upphafi. Til að bæta aðstöðuna fyrir innanlandsflugið hefur verið til skoðunar að félagið byggi sjálft nýja flugstöð á svipuðum stað og sú gamla stendur nú sagði Gunnlaugur.