Formenn Pírata og Samfylkingarinnar undrast áform forsætisráðherra um sérstakan stöðugleikaskatt á þrotabú föllnu bankanna, en hingað til hafi verið talað um útgönguskatt. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV .

Eins og VB.is greindi frá, boðaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í gær að  áætlun um losun gjaldeyrishafta yrði hrint í framkvæmd áður en þingið lýkur störfum í vor. Hann sagði í ræðu sinni að sérstakur stöðugleikaskattur muni þá skila hundruðum milljarða króna og muni ásamt öðrum aðgerðum gera stjórnvöldum kleift að losa um höft án þess að efnahagslegum stöðugleika verði ógnað.

Áformin komu Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, mjög á óvart. En hann hefur áhyggjur af því að stutt sé eftir af vorþingi. Hann segir að nú sé talað um stöðugleikaskatt, en fyrir jól hafi verið talað um útgönguskatt. Þannig að menn eru alltaf að leika sér með einhverjar nýjar og nýjar leiðir til að leysa þennan alvarlega vanda. Hann segir að lausnin hljóti að vera sú að leggja einhverja áætlun fram sem heldur vatni og sem menn geta tekið afstöðu til, þjóðin eigi það skilið. Þetta sé mjög viðkvæmt og vandasamt verkefni, það geti haft gríðarleg neikvæð áhrif fyrir þjóðina og þessi framganga ríkisstjórnarforystunnar sé ekki til mikils sóma.

Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, tekur undir með Árna Páli og segist aldrei hafa heyrt um sérstakan stöðugleikaskatt fyrr en í gær. Hún segist þá jafnframt spennt að sjá útfærsluna á þessu af því að þetta er svolítið bratt og glannalegt. Það sé stuttur tími fram að þinglokum og þetta sé þannig mál að maður verði að gera þetta mjög vel og vel ígrundað og skoða allar mögulegar hliðarverkanir, þannig að það verði ekki hér óðaverðbólga og þessi verðtryggðu lán fari úr böndunum enn og aftur.