Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segist undrandi á áhugaleysi ríkisstjórnarinnar í sjómannadeilunni. Þetta kom fram í Silfrinu á RÚV í morgun.

Sigurður Ingi benti á að þegar sjómannaafslátturinn hefði verið lagður niður hafi ekkert komið í staðinn. Undarlegt væri að heyra ráðherra í nýrri ríkisstjórn segja að ekki komi til greina að endurvekja afsláttinn þegar talað hefur verið um að það gæti liðkað fyrir samningum. Hann sagði engann vera að kalla eftir lagasetningu heldur gæti það einfaldlega hjálpað ef ríkið sýndi áhuga á að koma að deilunni með einhverjum hætti.

Þorsteinn Víglundsson, félags-og húsnæðismálaráðherra, sagði ríkisstjórnina ekki hafa neina forsendu til að koma að lausn sjómannadeilunnar. Hún gæti ekki hoggið á hnút deilu sem snerist um grundvallaratriði sjómanna, aflahlutdeildarkerfi þeirra. Hann ítrekaði að ríkið myndi ekki grípa inn í deiluna með lagasetningu og tók þar undir með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem sagði slíkt hið sama fyrr í dag.