„Það má gera ráð fyrir því að lækkun á kröfu óverðtryggðra skuldabréfa og hækkun á verðtryggðum sem hefur verið í gangi undanfarið muni snúast við þar sem verðbólga er meiri en menn spáðu,“ segir Brynja Hjálmtýsdóttir, fjárfestingastjóri hjá Auði Capital.

Spár gerðu ráð fyrir lítilsháttar hækkun vísitölu í júní og að draga myndi úr tólf mánaða verðbólgu í mánuðinum. Flestir greiningaraðilar reiknuðu með að ársverðbólga myndi fara úr 5,4% í 4,9%. Niðurstaðan var hins vegar sú að árs verðbólgan stóð í stað á milli mánaða. Brynja bendir á að búist sé við því að draga muni úr verðbólgu í næsta mánuði og því spurning hversu langvinn áhrifin verði á markaðnum.

Hún segir hækkun á flugfargjöldum og matvöru einkennilega í ljósi þess að verð á eldsneyti, ekki síst flugvélaeldsneyti, hafi lækkað mikið upp á síðkastið og samkeppni aukist í millilandaflugi. Þá hafi krónan styrkst sem hafi átt að skila sér í lægra matvöruverði. Þvert á móti hækkaði verð á flugfargjöldum um 11% á milli mánaða og matvöru um 1,1%.

„Gengisþróunin þýðir að innkaupsverð matvöru ætti að vera að lækka. Kaupmenn virðast hins vegar vera að taka til sín alla hækkun af sterkara gengi,“ segir hún.

12 mánaða verðbólga sl. 5 ár
12 mánaða verðbólga sl. 5 ár
© vb.is (vb.is)
Hér má sjá 12 mánaða verðbólguþróun síðastliðin fimm ár.