Greiningardeild Landsbankans segist undrast niðurfærslu hlutabréfaeignar Opinna kerfa. "Það sem kemur óvart í uppgjöri félagsins er að hlutabréfaeign er færð niður um 35 m.kr. á ársfjórðungnum. Á árunum 2002 og 2003 færði félagið niður hlutabréfaeign upp á tæpar 400 m.kr. og hafa stjórnendur félagsins gefið í skyn að búast mætti við að niðurfærslan færi að taka enda. T.a.m. var hlutabréfaeignin einungis færð niður um 3,5 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi og gerðum við því ekki ráð fyrir svo stórri niðurfærslu á öðrum ársfjórðungi. Þar að auki var tap hlutdeildarfélaga meira en gert hafði verið ráð fyrir."

Af þessum orsökum er hagnaður félagsins talsvert undir spá Greiningardeildar Landsbankans eða 41 m.kr. miðað við 95,6 m.kr. spá. Niðurfærsla hlutabréfaeignar hefur ekki áhrif á sjóðsteymi Opinna kerfa.

Á heildina litið er uppgjör félagsins í takt við væntingar Greiningardeildar Landsbankans sé niðurfærsla á hlutabréfaeign og tap hlutdeildarfélaga undanskilið. Þó má benda á að á fyrstu sex mánuðum ársins hefur svokallaðri virðisrýrnunaraðferð verið beitt á afskrift viðskiptavildar. Ef línulegri afskrift hefði verið beitt á viðskiptavild líkt og í fyrra hefði verið 12,7 m.kr. tap af rekstri félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins í stað 98,9 m.kr. hagnaðar segir í Vegvísi Landsbankans..