Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og formaður Miðflokksins, undrast sinnuleysi stjórnvalda í kringum „Drekamálið dularfulla“ í skoðanagrein sem birtist í Viðskiptablaðinu í morgun. Um sé að ræða gríðarstórt hagsmunamál og hápólitískt milliríkjamál sem varðar grundvallarhagsmuni þjóðarinnar.

Kínverska ríkisiolíufélagið CNOOC og norska ríkisolíufélagið Petoro gáfu eftir sérleyf til olíuleitar á Drekasvæðinu í síðustu viku. Kínverska félagið átti 60% hlut í sérleyfi til olíuleitar en hið norska 25% hlut. Eykon Energy sem átti 15% hlut í sérleyfinu vill þó halda sínum hluta leyfisins, Orkustofnun telur félagið þó ekki búa yfir tæknilegri, jarðfræðilegri né fjárhagslegri getu til að halda áfram með næsta áfanga rannsóknaráætlunarinnar felst. Óvissa ríkir því um áframhaldandi olíuleit á Drekasvæðinu.

„Stjórnvöld í erlendum ríkjum hafa nú tekið ákvörðun sem getur haft gríðarleg áhrif á íslenska hagsmuni, ákvörðun sem er í eðli sínu pólitísk, og hver eru viðbrögð íslenskra stjórnvalda?“ spyr Sigmundur Davíð. Hann segir VG hafa fagnað „þessu mikla óláni“ og að Sjálfstæðisflokkurinn virðist ætla að sýna málinu fullkomið fálæti. Jafnframt segir Sigmundur Davíð að afrakstur aðgerða sem ráðist var í milli 2013 og 2016, þegar hann var forsætisráðherra, hafi greinilega skilað svo miklum efnahagslegum umsnúningi að ríkisstjórnarflokkarnir telji nú að það taki því varla að bora eftir olíu og gasi.

Sigmundur Davíð segir ljóst að á Drekasvæðinu sé að finna olíu og gas og sterkar vísbendingar séu um að það sé í vinnanlegu magni. Olíu- og gasleit á norðurslóðum er hápólitískt milliríkjamál og segir hann það vera skyldi stjórnvalda að verja hagsmuni landsins á þessu sviði. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við þróun mála á Drekasvæðinu sé því undarleg. Hann spyr hvort ekki væri til dæmis ráð að kanna hvort aukinn áhugi Bandaríkjamanna á norðurslóðum og breytt staða Bretlands geti opnað á nýtt samstarf, nú þegar margir Norðmenn telji betra að Ísland haldi sig til hlés á norðurslóðum.

„[E]r það ætlun íslenskra stjórnvalda að vera bara aðgerðalausir áhorfendur að þróun mála á norðurslóðum og vanrækja þannig grundvallarhagsmuni þjóðarinnar?“ spyr Sigmundur Davíð að lokum.