Í könnunin Ferðamálaráðs í sumar kemur fram að greinilegur aldurs- og tekjumunur er hjá erlendu gestunum eftir því með hvaða flugfélagi þeir ferðuðust. Þannig var meðalaldur svarenda sem nýttu sér þjónustu Iceland Express tæplega 36 ár en í kringum 43 ár hjá farþegum með Flugleiðum og öðrum flugfélögum. Þá eru tekjur þeirra sem fljúga með Flugleiðum heldur hærri en farþega sem fljúga með Iceland Express eða öðrum félögum. Langflestir þeirra sem flugu með Iceland Express voru hér á eigin vegum en liðlega helmingur farþega með Flugleiðum og öðrum flugfélögum var hér á eigin vegum og 30-40% í skipulögðum pakkaferðum.

Í heildina eru niðurstöður sumarkönnunarinnar almennt í takt við fyrri kannanir Ferðamálaráðs að mati ferðamálastjóra. ?Það er alveg ljóst að þó við höfum verið að ná um 80 % fjölgun erlendra gesta á þessum átta árum þá hefur samsetning hópsins breyst sáralítið heldur höfum við einfaldlega verið að ná fleirum úr þessum áhugaverða markhópi til okkar, væntanlega vegna þess að við höfðum vel til þeirra,? segir Magnús Oddsson að lokum.