Um 350 nemendur á aldrinum 12-16 ára streyma í Háskóla unga fólksins nú í vikunni. Ungu nemendurnir hafa verið árviss sumarboði við Háskóla Íslands frá árinu 2004 og fagnar skólinn því nú tíu ára afmæli.

Í Háskóla unga fólksins, sem stendur yfir dagana 10.-14. júní, koma m.a. við sögu kappakstursbílar, svarthol, Biohphilia Bjarkar, hvalir, pöddur, stjórnmál og reiðhjól en kynleg íslenska, vatnalíffræði, kappakstursbílasmíði, sameindalíffræði, þýska, tölvuverkfræði, lögfræði, jarðvísindi og tómstunda- og félagsmálafræði er meðal þess sem ungu nemendurnir leggja stund á.

Nemendum gafst kostur á að velja á milli rúmlega 50 spennandi námskeiða í stundatöflu sína fyrir vikuna, þar á meðal fjölmörg ný námskeið sem eru í boði í tilefni afmælisins. Má nefna kristallafræði, Biophilia-tónvísindasmiðjurnar heimsþekktu, ljósmyndafræði, stjórnunar- og leiðtoganámskeið, smíði kappakstursbíls og vatnalíffræði. Sívinsæl námskeið eru sem fyrr í boði, svo sem efnafræði, japanska, sálfræði, kynjafræði, stjörnufræði, spænska og heimspeki, svo eitthvað sé nefnt. Kennsla í Háskóla unga fólksins er í höndum kennara og framhaldsnema við Háskóla Íslands.

Háskóli unga fólksins hefur einnig ferðast um landið sem hluti af Háskólalestinni síðustu fjögur ár en í nýliðnum maímánuði heimsótti Háskólalestin fjóra áfangastaði á landsbyggðinni.

Upplýsingar um Háskóla unga fólksins er að finna á vefnum www.ung.hi.is , og á Facebook ..