*

þriðjudagur, 15. október 2019
Innlent 7. janúar 2016 10:01

Liv: „Unga fólkið leiðir nýjungarnar“

Liv Bergþórsdóttir og Nova eru handhafar Viðskiptaverðlauna Viðskiptablaðsins. Hér er þriðji hluti af fjórum í viðtali við hana í tímaritinu Áramót.

Bjarni Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Nova og Liv Bergþórsdóttir forstjóri fyrirtækisins eru handhafar Viðskiptaverðlauna Viðskiptablaðsins árið 2015. Hún segir Nova vera frjálslegan vinnustað með öfluga liðsheild og gleði þótt miklar kröfur eru gerðar til fólks um árangur og að vinnuálagið sé oft mikið. Ánægja starfsfólks skiptir stjórnendur Nova miklu máli að sögn Livar og þótt fyrirtækið hafi nýverið fagnað átta ára afmæli sínu segir hún að fyrirtækið leitist við að halda ákveðna sprotamenningu. 

„Slík fyrirtækjamenning hentar auðvitað ekki öllum,“ segir hún. „Sumir vilja hafa meiri strúktúr í kringum sig og að skýrar reglur séu til um hvað má og hvað má ekki, ferla allt. Slíkt fólk finnur sig ekki hjá okkur.

Ný félög koma oft ótrúlega miklu í verk, sjá ekki hindranir og bara keyra áfram, en með tímanum fer svo allt að verða meira mál, skriffinskan verður meiri og allt verður þyngra í vöfum. Ég finn auðvitað fyrir því hjá Nova. Við erum jú öll að eldast en það er ekki þar með sagt að fyrirtækið þurfi að gera það. Þess vegna er það stanslaus barátta og verkefni hópsins að koma í veg fyrir að það gerist. 

Ímynd Nova byggir á slagorðinu Stærsti skemmtistaður í heimi. Eitt af lykilatriðunum við að vaxa hratt var að skapa sterkt vörumerki og öfluga ásýnd á félagið. Við erum virkilega stolt af því að hafa hlotið viðurkenninguna markaðsfyrirtæki ársins hjá ÍMARK í tvígang árið 2009 og 2014. Það er svo miklu auðveldara að starfa í markaðsdeild sem gerir reglulega bara sjónvarps- og dagblaðaauglýsingar í stað þess að þurfa að hjóla um bæinn, þeysast upp Esjuna eða standa í kuldanum á skautasvellinu á Ingólfstorgi. Við leggjum áherslu á lifandi markaðsstarf sem gerir miklar kröfur til hópsins.

Þá er eitt af markmiðum okkar að vera best á netinu. Ef þú ætlar að vera trúverðugur sérfræðingur í netinu í símann verður fyrirtækið að vera sýnilegt og öflugt á netinu. Þar kemur þessi áhersla okkar á markaðssetningu á netinu, Nova appið og samfélagsmiðla.

Við höfum hlotið fjölda viðurkenninga, það hefur gengið vel en það segir því miður ekkert til um árangur næsta árs. Með hverju ári koma nýjar áskoranir og nýjar kröfur og áherslur í sölu, þjónustu, tækni, starfsmannamálum osfrv. Við erum stolt og þakklát fyrir árangurinn til þessa en líka meðvituð um að við þurfum að gera nýja hluti á næsta ári til að halda okkur framarlega í leiknum.“

Stærsti skemmtistaður í heimi

Flestir kannast við slagorð Nova, „Stærsti skemmtistaður í heimi“, en Liv segir það hafa sprottið upp úr fyrstu auglýsingaherferð fyrirtækisins.

„Við gerðum markaðsrannsóknir sem sýndu að yngstu notendurnir voru mest spenntir fyrir 3G og neti í símann,“ segir hún. „Inntakið í herferðinni var að Nova opnar nýjar dyr að stærsta skemmtistað í heimi, internetinu, beint í farsímann. Netið er stærsti skemmtistaður í heimi, staðurinn sem þú ferð á til að halda sambandi við vini þína, kynnast nýju fólki og sækja þér upplýsingar og afþreyingu. Þetta átti aldrei að verða slagorð fyrirtækisins og ég hef aldrei verið neitt fyrir slagorð. Þetta þróaðist hins vegar þannig að setningin festist við okkur og varð annað og meira en bara slagorð. Stærsti skemmtistaður í heimi er í dag grunnurinn að því hver við erum og kjarninn í Nova stemningunni.

Skemmtistaðurinn breytist síðan með hverju árinu. Hann var allt annar árið 2007 en hann er í dag. Við höfum þróað hann áfram, tekið hann upp á Esjuna, á Ingólfstorg, til Eyja og á ótal fleiri staði og hann rúmar sífellt stærri hóp. Hann stendur einfaldlega fyrir lífsgleði.

Til að byrja með lögðum við mesta áherslu á ungt fólk í markaðsnálgun okkar, enda er sá hópur oftast fljótari til að tileinka sér og leiða tæknibreytingar. Þegar ég lærði markaðsfræði byggðist hún mikið á markhópagreiningu, þ.e. að skoða hópa fólks út frá kyni, aldri og búsetu. Það hefur breyst gríðarlega og ekki hægt að markhópagreina eins og áður var gert. Það er minni kynslóðamunur í dag en var fyrir 10-20 árum. Áður klæddi eldra fólk sig öðruvísi en það yngra, en núna ganga t.d. ömmur og afar landsins um í Diesel gallabuxum með iPhone í vasanum og hanga á Facebook. Og hvað búsetu varðar þá skiptir staðsetning ekki heldur sama máli og áður, við erum öll í sama póstnúmeri á netinu. 

Unga fólkið leiðir nýjungarnar og það eldra tekur fyrr við sér en áður. Unga fólkið hefur varla undan að finna upp á nýjum samfélagsmiðlum til að forðast innrás foreldranna.“ 

Sókn á fyrirtækjamarkaði

Liv segir að Nova hafi komið upphaflega inn á markaðinn til að taka þátt í netbyltingunni og að stjórnendur þess hafi trúað því að hægt væri að sérhæfa sig í 3G farsímatækni. „Nova var síðan fyrst íslenskra símafyrirtækja til að hefja 4G þjónustu hér á landi í apríl 2013,“ segir hún. „Vöxturinn síðan þá hefur verið gríðarlegur og drifinn áfram af netnotkun samhliða snjallvæðingunni. Í dag er markaðshlutdeild Nova í netnotkun í farsímum um 65%.

Fyrst var áherslan á frelsi og 0 kr. Nova í Nova, en undanfarin ár hefur vöxturinn verið hvað mestur í áskriftarþjónustu og netinu í símann — og svo nú síðast á fyrirtækjamarkaði. Sókn okkar á þeim markaði hefur gengið vel á árinu 2015. Þau fyrirtæki sem færa viðskipti sín til Nova eru gjarnan þau sem samsvara sér okkar fyrirtækjamenningu.

Samkeppnisaðilar okkar skiptu með sér fyrirtækjamarkaðinum, sem hvað síðastur fékk samkeppni. Nú þegar Nova stígur fæti inn á þann markað sjáum við sömu hluti gerast og hjá einstaklingum áður. Þjónustan batnar og verðið lækkar. Við teljum okkur eiga fullt erindi inn á fyrirtækjarmarkaðinn og geta hrist vel upp í honum, komið til móts við kröfur þess hóps með nýrri nálgun og auknum ávinningi til viðskiptavina.

Það hefur færst í vöxt að fyrirtæki fari í útboð á farsímaþjónustu og við höfum tekið þátt í þeim. Við sjáum nú fyrirtæki og stofnanir semja við símfyrirtæki um farsímaþjónustu fyrir upphæðir sem eru brot af því sem þær voru fyrir tveimur eða þremur árum. Það er eingöngu vegna þess að samkeppnin er nú að aukast á þessum hluta markaðarins.“

Samfélagsmiðlar

Liv segir að Nova hafi verið eitt af fyrstu fyrirtækjunum til að fara inn á Facebook og eiga í beinum samskiptum við viðskiptavini þar. „Í dag er Nova það fyrirtæki sem á hvað flesta fylgjendur á Facebook, tæplega 70.000 manns,“ segir hún. „Þar fáum við alveg að heyra það ef við erum ekki að standa okkur sem er frábært og hrós fyrir það sem vel er gert. Facebook auðveldar okkur að fá beint í æð það sem skiptir viðskiptavini okkar máli.

Við höfum síðan farið á fleiri samfélagsmiðla eins og Instagram og Snapchat. Það fylgja því tækifæri og hættur fyrir fyrirtæki að stíga inn í þennan heim. Markaðsstefna okkar hefur verið mjög net- og samfélagsmiðuð. Við viljum vera þar sem viðskiptavinir okkar eru hverju sinni og því vorum við einnig eitt fyrsta íslenska fyrirtækið á Snapchat.

Við erum virkilega ánægð með viðtökurnar við Nova Snappinu en um 30.000 manns horfa á stök Nova snöpp. Í raun má segja að snappið sé okkar sjónvarpsstöð og það er vissulega nýtt fyrir okkur og krefjandi að standa í innlendri dagskrágerð. Líkt og RÚV og Stöð 2 erum við með góða þætti og slæma að mati áhorfenda. Það verður líka alltaf þannig að það er ekki hægt að gera öllum til geðs samtímis. Við hlökkum til að þróa okkur áfram á þessum miðli.“

Þetta er þriðji hluti af fjórum í Viðtali Viðskiptablaðsins við Liv Bergþórsdóttur. Hægt er að nálgast fyrsta hlutann hér og annan hluta hér.