*

laugardagur, 24. júlí 2021
Innlent 10. maí 2017 14:18

Unga fólkið svartsýnna á efnahaginn

Rúmlega þriðjungur Íslendinga telur ástand efnahagsmála vera slæmt samkvæmt nýrri könnun, sér í lagi ungt fólk og námsmenn.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Samkvæmt nýrri könnun MMR telja 35% svarenda efnahagstöðuna hér á landi vera slæma, meðan 65% svarenda sögðu hana vera góða. Þar af sögðu 7,4% hana vera mjög góða, og 9,6% þeirra hana vera mjög slæma.

Nokkur munur var á milli hópa, eftir aldri, kyni, atvinnu og stjórnmálaskoðunum og voru stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar líklegastir til að telja efnahagsstöðuna góða, eða 87% þeirra. Stuðningsmenn þeirra flokka voru jafnframt líklegastir til að telja að efnahagsástandið myndi batna næstu sex mánuði, eða 27% og 29%.

Svarendur í sérfræðistörfum voru líklegri en aðrir til að telja stöðu efnahagsmála góða, eða 77% þeirra, meðan námsmenn voru líklegastir til að telja stöðuna slæma, eða 49% þeirra.

Eldra fólkið finnst staðan góð

Að sama skapi reyndist aldurshópurinn 18 til 29 ára líklegastur til að segja efnahagsstöðuna slæma, og töldu 47% þeirra hana vera slæma, þar af 16% hana mjög slæma.

Aldurshópurinn 68 ára og eldri var hins vegar líklegri en aðrir til að telja efnahagsstöðuna mjög góða, eða 16% þeirra, en meðal 50 til 67 ára var það hlutfall 8% og 6% í aldurshópnum 30 til 49 ára og 18 til 29 ára.

Meiri svartsýni meðal kvenna

Meðal kvenna virtist vera meiri svartsýni en karla, en 5% þeirra sögðu efnahagsstöðuna mjög góða, og 55% hana frekar góða, en 10% karla sögðu hana mjög góða og 60% frekar góða. Þegar spurt var hvernig efnahagsstaðan yrði á Íslandi eftir sex mánuði sögðu rúm 16% þeirra að hún yrði betri , 57% hana svipaða, og 27% að hún yrði verri.

En konur voru voru ívið líklegri til að telja að hún myndi versna, eða 28% þeirra á móti 26% karla, og að sama skapi töldu 19% karla að efnahagsásandið myndi batna en 14% kvenna.

Svartsýni um framtíðina meðal embættismanna

Ef horft var á aldurshópana sést að meiri svartsýni er meðal 68 ára og eldri, en 34% þeirra töldu að efnahagsástandið myndi versna á næstu sex mánuðum meðan 8% þeirra töldu að það myndi batna.

Um 62% þjónustu- og skrifstofufólks, auk tækna og þeirra sem ekki voru útivinnandi töldu að efnahagsstaðan yrði svipuð eftir 6 mánuði, meðan 34% stjórnenda og æðstu embættismanna voru sama sinnis. 31% þeirra töldu að staðan myndi batna, en 35% að hún myndi versna.

Vinstri grænir svartsýnastir

Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar voru líklegastir til að telja að efnahagsástandið yrði svipað eftir sex mánuði og nú, eða 63% og 62%, meðan 44% stuðningsmanna Viðreisnar voru sama sinnis.

Einungis 7% stuðningsmanna Samfylkingar töldu að efnahagurinn myndi batna, meðan stuðningsfólk Vinstri grænna, voru líklegri en aðrir til að telja að hann myndi versna, eða 35% á næsta hálfa árinu.

Stikkorð: MMR efnahagsástand framtíðin