Sjóðstýringarfélagið Stefnir hagnaðist um 975 milljónir í fyrra og velti 2,4 milljörðum. Rekstrarárið var með þeim betri hjá félaginu að sögn Kristbjargar M. Kristinsdóttur, rekstrarstjóra  félagsins. „Þar spilar inn í afskaplega gott hlutabréfaár á mörkuðum.  Allir eignaflokkar skiluðu góðum árangri.“

Árið í ár einkennist hins vegar  af heimsfaraldrinum og þeim takmörkunum sem heimsbyggðinni  voru settar. „Það verður samt að segjast að sjóðir Stefnis og rekstur félagsins eru engu að síður að koma vel út úr þessu árferði.“

Síðastliðin ár hefur Stefnir hugað að ábyrgum fjárfestingum og unnið er að því að innleiða þær í fjárfestingaferli sjóða. „Við settum okkur stefnu þess efnis fyrir tveimur árum, en höfðum lengi verið að vinna eftir fjárfestinga-ákvörðunarferlum sem báru keim af þessu fyrir. Mikið af okkar nýsköpun þessa dagana snýst um þennan málaflokk.“

Kristbjörg segir Stefni vera leiðandi í samfélagslega ábyrgum fjárfestingum hér á landi. „Mig langar  svo að sjá fólk horfa til lengri tíma og hugsa um hvað er samfélaginu til góðs. Við þurfum að gera það útaf umhverfinu, félagslegum þáttum og  fleiru.“

Annað sem hún segir mikilvægt er að styðja við félög sem eru  skemmra á veg komin, en hafa mikla möguleika á að dafna og stækka. Merkjanleg aukning hefur verið í áhuga viðskiptavina á grænum og sjálfbærum fjárfestingum að sögn Kristbjargar. Ekki aðeins spyrji fólk sérstaklega eftir þeim, heldur vilji það fá allar upplýsingar um þær  fjárfestingar sem uppfylli sín skilyrði. Fólk skoði fjárfestingarkosti í  auknum mæli á fleiri forsendum en bara arðsemi.

„Ég finn það hiklaust. Við sjáum þetta mikið hjá ungu fólki. Mér finnst það ótrúlega áhugavert að það er ný kynslóð að koma fram sem ætlar að setja fleira fyrir sig en bara fjárhagsöryggi sitt í framtíðinni. Ég held að fólk vilji finna eitthvað sem því líður vel með. Það vill finna að  það sé hluti af einhverri framtíðarverðmætasköpun sem mun leiða  eitthvað jákvætt af sér.“

Þótt lögð sé áhersla á fleiri þætti en ávöxtun er þó ekki þar með sagt að ávöxtunin þurfi að vera léleg.  „Hún þarf ekkert að vera verri. Þessar vísitölur eru að fylgjast mjög vel  að, og til lengri tíma ætti samfélagslega ábyrgum fyrirtækjum að ganga  betur af fjölmörgum ástæðum.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun og unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .