"Við erum nefnd fyrir ungar konur sem hafa áhuga og metnað fyrir atvinnulífinu og starfsframa sínum," segir Karen Ósk Gylfadóttir, stjórnarkona í nýstofnaðri nefnd sem starfar undir Félagi kvenna í atvinnulífinu. Nefndin heitir ungar athafnakonur og er ætlun hennar að styrkja stöðu og framtíð ungra kvenna sem stjórnenda og þátttakenda í atvinnulífinu. Formaður og stofnandi nefndarinnar er Lilja Gylfadóttir.

Nefndin stefnir að því að auka vitund um hlutverk kvenna og stuðla að bættu samfélagi þar sem konur og karlar standi jafnfætis og bjóðist sömu tækifæri. "Við verðum með fimm viðburði yfir árið, allir viðburðir verða meðlimum að kostnaðarlausu," segir Karen. Þá verði meðlimir gjaldgengir á alla rúmlega 30 viðburði FKA á ári.

Nefndin er opin öllum konum þrjátíu ára og yngri sem eru í námi eða nýkomnar út á vinnumarkaðinn. Stofnfundurinn var haldinn í höfuðstöðvum KPMGí gær.