Félagið Leikskólinn 101 ehf, sem heldur utan um rekstur samnefnds ungbarnaleikskóla, var úrskurðaður gjaldþrota í héraðsdómi Reykjavíkur 22. janúar síðastliðinn. Fram kom í Lögbirtingablaðinu í gær að búið er að skipa skiptastjóra yfir þrotabúinu og hefur hann auglýst eftir kröfum í þrotabúið.

Leikskólanum var lokað í byrjun hausts þegar upp komst um meint harðræði starfsmanna skólans gegn börnum. Þá mun skattrannsóknarstjóri sömuleiðis hafa fjármál leikskólans til athugunar.

Skila tapi en greiða sér út arð

Fram kemur í uppgjöri félagsins Leikskólinn 101 ehf fyrir árið 2012 að tæplega 4,4 milljóna króna tap varð af rekstri hans á árinu. Tapið nam einni milljón króna árið 2011. Tap fyrir afskriftir nam 3,7 milljónum króna þetta árið. Eignir voru bókfærðar á 7,7 milljónir króna en skuldir námu rétt rúmum 7,2 milljónum króna. Eigið fé félagsins var jákvætt um 541 þúsund krónur.

Fram kemur í uppgjöri leikskólafélagsins að eigendur hans greiddu sér út 1,2 milljónir króna vegna afkomunnar árið 2011. Sama ár, þ.e. árið 2012, tapaði Leikskólinn 101 ehf 4,4 milljónum króna og bættist það við tap upp á eina milljón árið 2011. Sama ár og tapið nam einni milljón króna greiddu eigendur félagsins sér út 1,9 milljóna króna í arð vegna afkomu ársins 2010. Það ár hagnaðist Leikskólinn 101 hins vegar um rúmar 2,4 milljónir króna.