Félag ungra fjárfesta var stofnað í upphafi árs 2014 af sex ungum fjárfestum. Tilgangur félagsins er að auka áhuga ungs fólks á fjármálum, fjárfestingum og sparnaði auk þess að vera vettvangur fyrir ungt fólk til þess að hittast og ræða þessi málefni. Félagið er opið öllum á aldrinum 18-35 ára og engar kvaðir um reynslu, þekkingu eða fjárhag eru til staðar.

Í lok mars fóru níu Íslendingar til Ósló á vegum Ungra fjárfesta þar sem þeir hitti systurfélög sín frá Svíþjóð og Danmörku en tildrög ferðarinnar voru þau að fyrir um ári síðan kom hópur frá Ungum fjárfestum í Svíþjóð í heimsókn til Íslands. Hópurinn sem fór frá Íslandi var hópurinn sem tók á móti sænska hópnum í fyrra auk nokkurra nýrra stjórnarmanna.

Í upphafi var einnig tilgangur ferðarinnar að stofna norræn regnhlífarsamtök til að efla samstarf félaganna en það tók breytingum á leiðinni og niðurstaðan varð sú að stofna heimssamtök Ungra fjárfesta (World Federation of Young Investors).

„Ungir fjárfestar á Ísland auk systursfélaga okkar í Svíþjóð og Danmörku stofnuðu félagið í Osló og eru því stofnaðilar heimssamtakanna. Tilgangur þeirra er að auka tengsl og samstarf Ungra fjárfesta í mismunandi löndum og einnig að aðstoða ungt fólk út um allan heim við að koma á fót félagi í sínu heimalandi,“ segir Alexander Jensen Hjálmarsson, formaður Ungra fjárfesta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .