Ísland hefur á örfáum árum farið fram úr Danmörku og Noregi og náð Svíþjóð hvað varðar fjölda ungs fólks í háskólanámi, samkvæmt upplýsingum í Norrænu tölfræðiárbókinni 2006, sem kom út í dag.

Árið 2000 voru um 10,5 prósent Íslendinga á aldrinum 20 til 40 ára í háskólanámi. Árið 2004 var hlutfallið orðið 15 prósent. Á örfáum árum hefur Ísland farið fram úr Danmörku og Noregi og náð Svíþjóð hvað varðar fjölda námsmanna í háskólanámi sem hlutfall af íbúafjölda.

Finnland er þó enn í fararbroddi meðal norrænna ríkja hvað þetta varðar. Um 19 til 20 prósent Finna stunda háskólanám hverju sinni. Danmörk er hins vegar í neðsta sæti á Norðurlöndum.

Miðað við önnur norræn ríki hafa tiltölulega margir Íslendingar valið að stunda nám innan félagsvísinda, hagvísinda og lögfræði.

Tiltölulega margir Íslendingar stunda einnig nám erlendis. Nær helmingur þeirra stundar nám í öðru ríki Norðurlanda, flestir í Danmörku. Segja má að frá þessum sjónarhóli sé Ísland norrænast norrænu ríkjanna.

Íslensku námslánin eru hærri en sú námsaðstoð sem veitt er annars staðar á Norðurlöndum. Á hinn bóginn veita hin ríkin hluta námsaðstoðarinnar í formi styrkja sem ekki þarf að endurgreiða.

Hagtölurnar sýna meðal annars þróun íslensks efnahagslífs, vaxta, gengis verðbréfa og viðskiptahalla. Vöxtur vergrar þjóðarframleiðslu á Íslandi hefur verið hærri en í öðrum norrænum ríkjum og rúmlega tvisvar sinnum meiri en meðaltalsvöxturinn annars staðar í Vestur-Evrópu. Einungis í Noregi eru meðaltekjur á íbúa miðað við verga þjóðarframleiðslu hærri en á Íslandi.