Ungir jafnaðarmenn hafa sent frá sér ályktun þar sem þeir lýsa yfir „óskoruðum stuðningi við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem formann Samfylkingarinnar“. Í yfirlýsingunni segir að tilefni hennar séu orð Jóns Baldvins Hannibalssonar um að hún ætti ekki að gefa kost á sér áfram. Það sé rétt hjá Ingibjörgu að Samfylkingin hafi axlað þá pólitísku ábyrgð sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi alfarið neitað að gera í fyrri ríkisstjórn, segir í yfirlýsingunni.

Í yfirlýsingunni segir einnig: „Ungir jafnaðarmenn ítreka stuðning sinn við að hjá Samfylkingunni verði valið með prófkjörum á framboðslista fyrir komandi kosningar. Krafan er að á Alþingi taki nýtt fólk sæti. Sjálfsagt er að Jón Baldvin og aðrir láti reyna á styrk sinn gagnvart þeirri kröfu.“