Ungir Jafnaðarmenn bregðast ókvæða við þeim hvatvísu ummælum Jóns Bjarnasonar landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra þess efnis að íslensk stjórnvöld segi ósatt frá því hvernig samningaferli við Evrópusambandið sé háttað og að ríkisstjórninni beri að draga umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka.

Þetta kemur fram í ályktun sem miðstjórn Ungra jafnaðarmanna samþykkti í dag en þar er þess krafist að Jón Bjarnason segi tafarlaust af sér.

Ungir jafnaðarmenn segja að ítrekuð dæmi séu til um það Jón Bjarnason sé ófær um að starfa jafnfætis ríkisstjórninni og beinlínis þvert á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna. Þannig megi nefna andstöðu hans við uppstokkun innan stjórnarráðsins og tregleika við eflingu nýliðunar og samkeppni í landbúnaðargeiranum.

„Í ljósi þess krefjast Ungir jafnaðarmenn tafarlausrar afsagnar Jóns Bjarnasonar af stóli Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra,“ segir í ályktuninni.