Stjórn Uglu – ungra jafnaðarmanna á Suðurnesjum fagnar tilkomu hollenska fyrirtækisins ECA á Íslandi og þeim fjöldamörgu hátæknistörfum sem munu koma til með að skapast í kjölfarið.

Þetta kemur fram á vef Víkurfrétta en í ályktun Uglu segir með verkefninu verði til u.þ.b. 150 störf fyrir flugvirkja auk nokkurra tuga starfa fyrir hugbúnaðarsérfræðinga. Er það fyrir utan öll almenn störf á vegum fyrirtækisins hér á landi.

„Stjórn Uglu telur að taka eigi vel á móti þeim aðilum sem tilbúnir séu til að koma hingað til lands með erlenda fjárfestingu í þágu nýsköpunar og að verkefnið eigi vel heima við Keflavíkurflugvöll þar sem um flugtengda starfsemi sé að ræða auk þess sem návígið við Ásbrú og Keili muni stuðla enn frekar að myndun öflugs mennta- og hátæknisamfélags á gamla Varnarsvæðinu,“ segir í frétt Víkurfrétta af málinu.

Sem kunnugt er eru ungliðar Vinstri grænna ekki á sama máli og ungir jafnaðarmenn á Suðurnesjum en þessir flokkar eru nú saman í ríkisstjórn.

Ungir vinstri grænir ásamt mörgum þingmönnum hreyfingarinnar hafa lýst yfir mikilli andstöðu við því að ECA fái að starfa hér á landi en til að svo geti orðið þarf að breyta lögum.