Ástæða þess að ungt fólk í Bandaríkjunum dregur á langinn að kaupa sér bíl er sú að það hefur ekki efni á bílnum. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri könnun sem markaðsfyrirtækið Strategic Vision gerði nýverið vestanhafs. Markmiðið með könnuninni var að kanna hvaða ástæður liggi að baki því að ungt fólk fresti bílakaupum sínum.

Fram kemur í umfjöllun bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal um málið að tekjur yngra fólks séu almennt ekki háar. Á sama tíma sligist það undan námslánum. Í niðurstöðum könnunar Strategic Vision kemur fram að þótt yngra fólk, þ.e. fólk undir 25 ára aldri, hafi almennt ekki efni á nýjum bíl þá þýði það ekki að það langi í bíl. Þvert á móti hafi það mikinn áhuga á bílum.