Ákveðið hefur verið að mynda menntahóp allra þeirra sem koma að sérmenntun sem tengist sjávarklasanum. Sjávarklasinn hefur það að markmiði að auka verðmæti og efla skilning á mikilvægi haftengdrar starfsemi á Íslandi, að því er fram kemur í tilkynningu frá Íslandsbankana.

Fram kom á fundi aðstandenda sjávarklasans með menntastofnunum sem aðild eiga að honum að áhugi ungs fólks á menntun sem tengist sjávarklasanum er takmarkaður og hefur borið á skorti á vel þjálfuðu og menntuðu fólki á tilteknum sviðum klasans.

Í tilkynningu frá Íslandsbanka, sem er einn af stofnaðilum sjávarklasans, kemur fram að hann hafi veitt fimm milljóna króna styrk til að efla menntun í þessum fræðum.

Þá kemur fram í tilkynningunni að menntahópur sjávarklasans hittist í vikunni og kynntu fulltrúar menntastofnanna þá menntun sem boðið er upp á í þessum fræðum. Á fundinum kom fram að aðsókn hefur víða dvínað á síðustu árum og að þörf sé á að bjóða upp á nýja og spennandi námskosti. Hópurinn stefnir að því að aðgerðaráætlun varðandi menntamálin liggi fyrir í vor sem miðar að því að auka aðsókn nemenda næstu skólaár.