Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði á leiðtogafundi ráðherra aðildarríkja Evrópusambandsins í Berlín, atvinnuleysi í röðum ungs fólks mesta vanda sambandsins um þessar mundir. Á fundi ráðherra verður rætt um leiðir til að vinna á vandanum og auka möguleika og tækifæri ungs fólks á vinnumarkaði. Samkvæmt upplýsingum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, er um 23% fólks á aldrinum 25 ára og yngri innan ESB án atvinnu. Staðan er talsvert verri í sumum löndum en öðrum en talið er að allt upp undir helmingur ungs fólks mæli göturnar á Spáni og Grikklandi.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir leiðtogana m.a. hafa samþykkt að veita sex milljörðum evra, jafnvirði næstum þúsund milljarða íslenskra króna, til málaflokksins. Hins vegar hefur ekki verið ákveðið til hvaða ráða eigi að grípa.