Sá hópur sem er í erfiðastri stöðu vegna mikilla skulda umfram verðmæti eigna keypti fasteign á höfuðborgarsvæðinu skömmu fyrir hrun bankanna, það er seinni part árs 2007 eða fyrri part ársins 2008. Í flestum tilfellum er það ungt fólk sem situr eftir með sárt ennið. Frá þessu greindu Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í byrjun síðustu viku. Var þetta meðal annars byggt á gögnum frá Seðlabanka Íslands að því er Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður Jóhönnu, greindi Viðskiptablaðinu frá í samtali í gær.


Nýleg gögn um skuldastöðu heimilanna frá Seðlabankanum sýna að vandinn er einna mestur hjá þeim sem voru að kaupa sína fyrstu fasteign skömmu fyrir hrun ýmist með gengistryggðum eða verðtryggðum lánum. Vandinn er einnig mikill hjá þeim sem endurfjármögnuðu lán á árinu 2004 og síðar. Á árinu 2008 voru bankarnir þrír, Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir, nær allir hættir að lána til fasteignakaupa og annarra viðskipta vegna lausafjárskorts.


Íbúðalánasjóður efldur

Um mitt ár 2008 ákvað ríkisstjórn Íslands að reyna að sporna við minnkandi veltu á fasteignamarkaði með því að auka lánveitingar Íbúðalánasjóðs til fasteignakaupa. Jóhanna Sigurðardóttir, sem var félagsmálaráðherra á þessum tíma, kynnti aðgerðirnar opinberlega og sagði nauðsynlegt að bregðast við ástandinu á fasteignamarkaðnum með aðgerðum. Í breytingunum fólst m.a. að hámarkslán Íbúðalánasjóðs hækkuðu úr 18 milljónum í 20 milljónir. Þá var brunabótamat afnumið sem viðmið fyrir lánveitingum Íbúðalánasjóðs en þess í stað var tekið upp viðmið um allt að 80% af kaupverði eigna. "Þessi breyting miðar ekki síst að því að auðvelda fólki kaup á minni eignum, einkum á höfuðborgarsvæðinu þar sem brunabótamat er oft á tíðum um 50% af markaðsverði eigna og því erfitt að fjármagna kaup á litlum íbúðum með lánum frá Íbúðalánasjóði," sagði m.a. í fréttatilkynningu frá Jóhönnu í tilefni af fyrrnefndum breytingum sem gerðar voru á Íbúðalánasjóði.


Eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu í apríl á þessu ári efldust lánveitingar Íbúðalánasjóðs umtalsvert við þessar breytingar. Á þriggja mánaða tímabili áður en breytingarnar voru gerðar, frá mars til júní 2008, veitti sjóðurinn um 1.600 lán. Frá júní og fram í október 2008, þegar bankakerfið hrundi, veitti sjóðurinn hins vegar rúmlega 2.800 lán. Auknar lánveitingar skýrast þó að einhverju leyti af árstíðarsveiflum þar sem fasteignaviðskipti eru oft tíð síðsumars eða á haustmánuðum.