*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 23. mars 2016 13:36

Ungt fólk situr eftir

Fólk undir þrítugu hefur setið eftir í kaupmáttaraukningu og fólk undir tvítugu í dag hefur minna á milli handanna heldur en fólk undir tvítugu í byrjun 10 áratugsins.

Ritstjórn
Getty Images

Ungt fólk hefur setið eftir í kaupmáttaraukningum síðustu áratuga. Ráðstöfunartekjur einstaklinga, á föstu verðlagi jukust um 41% að meðaltali frá 1990 til 2014. Ráðstöfunartekjur fólks á aldrinum 16 til 19 ára jukust á sama tíma um 17%, jukust um 7% hjá 20-24 ára og hækkuðu um 13% hjá 25-29 ára. Þetta kemur fram í nýjum pistli frá Greiningardeild Arion banka.

Greiningardeildin segir að af gögnunum megi lesa að fólk undir þrítugu hafi setið eftir og raunar hefur fólk undir tvítugu í dag minna á milli handanna heldur en fólk undir tvítugu í byrjun 10 áratugsins, ef marka má gögnin.

Arion segir að þarna sé aðallega að verkum mismunandi aukning atvinnutekna milli kynslóða. Breytt tekjudreifing innan aldurshópa virðist frekar ýkja muninn milli aldurshópa, þar sem tekjuójöfnuður hefur aukist í yngri aldurshópunum, en minnkað hjá öðrum.

Fram kemur að á 10. áratugnum hafi launaþróun fólks undir þrítugu áþekk því sem gerðist í öðrum aldurshópum. Um aldamótin hafi þó byrjað að draga á milli þegar ráðstöfunartekjur fóru að vaxa enn hraðar og breikkaði bilið milli 16-29 ára og 30-64 ára um 2% á ári að jafnaði. Þróunin snérist lítillega við í kjölfar fjármálakreppunnar en hlutfallið hefur haldist nokkuð stöðugt síðan þá. Niðurstaðan er sú að síðan árið 2000 hafa tekjur fólks undir 30 ára aldri setið eftir.

Aukin skólasókn ástæðan?

Arion segir að hluti af ástæðunni sé rakin til aukinnar skólasóknar ungs fólks, en meiri skólasókn minnkar tími til atvinnu eðli málsins samkvæmt.

Atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 16 til 24 ára hefur þó aukist meira en hjá öðrum aldurshópum frá árinu 1991. Meðalvinnutími þeirra sem eru í vinnu meðal yngsta aldursbilsins hefur minnkað meira en hjá eldri, en aftur á móti hefur meðalvinnutími allra einstaklinga í þeim hópi ekki styst umfram aðra. Ef eingöngu árin 2000 til 2007 eru skoðuð þá styttist vinnutími 25-54 ára mun meira heldur en meðal 16-24 ára, einmitt á þeim tíma sem meðaltekjur 25-54 ára hækkuðu hvað mest. Greiningardeildin segir því að það sé fátt sem bendi til þess að beint vinnuframlag, í sambandi atvinnuþátttöku og fjölda vinnustunda, skýri bilið í launaþróun ungs fólks og annarra. Það eina hér sem virðist geta verið orsakavaldur er mikil aukning hlutastarfa hjá þeim yngstu, á kostnað fullra starfa.