Endurskoðun á markmiði lífeyrissjóðanna um 3,5% raunávöxtun hefur ekki farið fram, segir Steingrímur J. Sigfússon fyrrverandi fjármálaráðherra í svari við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur.

„[L]jóst er að helstu forsendur fyrir þessu viðmiði og aðstæður á markaði hafa breyst. Hagvöxtur á Vesturlöndum hefur dregist saman á undanförnum árum og efnahagshorfur eru almennt ekki þannig að varlegt eða raunhæft sé að reikna með 3,5% ávöxtun eigna. Hér innan lands hafa gjaldeyrishöft einnig haft þau áhrif að þrýsta vöxtum niður á við,“ segir í svari þáverandi fjármálaráðherra.

Mismunandi áhrif á aldurshópa

Hafa verður í huga að lækkun vaxtaviðmiðs hefur mismunandi áhrif á aldurshópa. Í töflunni hér að neðan er gerð grein fyrir því hvernig réttindi í lífeyrissjóð þyrftu að skerðast við lækkun vaxtaviðmiðs úr 3,5% í 3,0% eða 2,5% þannig að skuldbindingar yrðu hinar sömu eftir sem áður.

Lækkun hjá lífeyrisþegum er til muna minni en hjá yngri sjóðfélögum. Sjötug kona getur vænst þess að lifa í rúm 16 ár og sjötugur karl í rúm 14 ár. Lækkun vaxtaviðmiðs um 1 prósentustig leiðir til 8% lækkunar lífeyris sem ella hefði lækkað um 1% á ári. Réttindi sem fertugur einstaklingur hefur þegar áunnið sér mundu lækka um 30%.

Áhrif lægri raunávöxtunar lífeyrissjóða
Áhrif lægri raunávöxtunar lífeyrissjóða
© vb.is (vb.is)