*

laugardagur, 14. desember 2019
Innlent 13. júní 2019 11:24

Ungur og sprækur Kalli K

Innflytjandinn Karl K. Karlsson tók yfir Bakkus á síðasta ári. Hið nýja félag verður einn stærsti innflytjandi áfengis á Íslandi.

Jóhann Óli Eiðsson
Framkvæmdastjórinn Örn Héðinsson segir að mikil vaxtartækifæri séu til staðar
Haraldur Guðjónsson

Nýju heiti sameinaðs félags Karls K. Karlssonar og Bakkusar verður ýtt úr vör í dag og mun félagið vera þekkt sem Kalli K héðan af. Sem stendur er Bakkus rekið sem dótturfélag fyrrnefnda félagsins en sameining er á döfinni um næstu áramót. Hið nýja félag verður einn umsvifamesti áfengisinnflytjandi landsins.

Bæði félög hafa verið stórir innflytjendur á áfengi um árabil, Karl K. Karlsson þó öllu lengur. Félagið var stofnað árið 1946 og hefur flutt hingað til lands matvöru, sælgæti og hreinlætisvörur. Léttvínin hafa þó ávallt verið fyrirferðarmest. Bakkus var á móti stofnað árið 2003 og hefur ávallt lagt höfuðáherslu á innflutning léttvíns.

„Við  erum fjórir sem keyptum Karl K. Karlsson árið 2017. Við nýttum árið í fyrra til að endurskipuleggja og laga reksturinn að okkar sýn. Í þeirri vinnu kom í ljós að möguleiki væri á að kaupa Bakkus. Þær viðræður gengu vel, lauk með kaupum og við tókum við rekstrinum 2. janúar þessa árs,“ segir Örn Héðinsson, framkvæmdastjóri félagsins.

Auk Arnar eru í eigendahópnum Helgi Hilmarsson, Stefán Hilmarsson og Hannes Hilmarsson en sá síðastnefndi er oft nefndur í sömu andrá og flugfélagið Atlanta.

Að sögn framkvæmdastjórans eru mikil tækifæri til staðar. Kalli K bjóði upp á yfirgripsmikið úrval og sé einn stærsti birgirinn á markaðnum. Við sameininguna um næstu áramót komi til með að myndast sterk samlegðaráhrif og gera áætlanir eigenda ráð fyrir því að velta verði vel á annan milljarð króna. Framkvæmdastjórinn segir að fyrirtækið reyni eftir fremsta megni að versla við  framleiðendur sem standa framarlega á sviði umhverfismála. Þar fer einna fremstur meðal jafningja Torres en í katalóg Kalla K má að auki finna léttvínin Bolla, Villa Maria, Ricasoli og Marques de Riscal svo fáein séu nefnd. Af bjórum má nefna hinn eistneska Saku, þýska Krombacher og spænska San Miguel. Að auki flytur félagið meðal annars inn pasta- og tómatvörur og Lindor súkkulaði.

„Ef horft er til innflutnings á léttvíni og bjór, þar sem innlendir lagerbjórar eru teknir út fyrir sviga, þá erum við sennilega þriðji eða fjórði stærsti heildsali til ÁTVR og einn stærsti birgir Fríhafnarinnar. Þá förum við mjög hratt vaxandi á veitingamarkaði,“ segir Örn.

„Til að auðvelda sýn okkar og frekari sókn þá ákváðum við að kynna til leiks nýtt vörumerki félagsins. Við ákváðum að halda hvorki í Bakkus né Karl K. Karlsson og tökum þess í stað formlega Kalli K. Það var mjög auðveld ákvörðun enda þekkir bransinn okkur undir þessu nafni,“ segir Örn. Boðið hefur verið til gleðskapar í dag til að halda upp á tímamótin og þær breytingar sem þau hafa í för með sér.

„Karl K. Karlsson er mjög formlegt, þungt og stirt. Nú eru komnir nýir eigendur með breyttar áherslur, léttari og sprækari. Við sjáum Kalla K sem ungan og sprækan einstakling sem er tilbúinn að taka sprettinn til að þjónusta viðskiptavininn,“ segir Örn að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér