Fasteignamarkaðurinn í Ungverjalandi náði sér aldrei á flug í uppsveiflu undanfarinna ára heldur var á nær stöðugri niðurleið samkvæmt úttekt Global Property Guide. Nú er fasteignamarkaðurinn þar í landi enn frekar barinn niður í samdrættinum. Hefur fasteignaverð í höfuðborginni Budapest fallið um 10-30% á fyrsta ársfjórðungi 2009.

Fallið nú kemur í kjölfar stöðugrar lækkunar undanfarinna ára samkvæmt tölum seðlabanka Ungverjalands. Nam lækkunin 4,2% árið 2008, um 5,7% árið 2007, 5,3% á árinu 2006 og 2,7% lækkunar var á árinu 2005 að teknu tilliti til verðbólguleiðréttingar. Á árunum 2003 til 2004 hækkaði raunverð fasteigna í Ungverjalandi hins vegar um 5,45%.

Líkt og varðandi íslensku krónuna þá er álitið á ungversku forintunni ekki mikið. Frá því í september 2008 hefur mikil skuldsetning í erlendri mynt, einkum í svissneskum frönkum og evrum, valdið 20% falli forintunnar. Þessi lán í erlendri mynt hafa staðið undir 80% til 90% af fjármögnun fasteignalána í landinu á árunum 2007 og 2008.

Bankar hættu frekari lánveitingum til landsins í erlendri mynt í haust. Í október kom Alþjóða gjaldeyrisjóðurinn IMF, Evrópusambandið og Alþjóðbankinn og veittu Ungverjum 20 milljarða evra lán til bjarga málum. Samt er enn búist við 8% til 9% verðfalli fasteigna í landinu á næstunni og áfram á árinu 2010.