Rússneska orkufyrirtækið Gazprom skrúfaði fyrir gas til Úkraínu í sumar þegar samningar um gasskuldir Úkraínumanna náðust ekki í viðræðum þeirra á milli. Síðan þá hefur Úkraína þegið gas frá Ungverjalandi, Pólandi og Slóvakíu, en nú eru Úkraínumenn lentir í vandræðum því Ungverjaland hefur ákveðið að hætta viðskiptunum. BBC News greinir frá málinu.

Úkraínska orkufyrirtækið Naftogaz hefur staðfest stöðvunina, og segir að hún sé algjörlega óviðbúin og óútskýrð. Ungverska gasfyrirtækið FGSZ, sem tók ákvörðunina um að skrúfa fyrir gasið, segir hins vegar að nýta þurfi gasið í heimalandinu.

Úkraínumenn hafa áhyggjur af komandi vetri vegna málsins þar sem það getur reynst vandkvæðum bundið að sækja nægilegt gasmagn fyrir orkuiðnað og heimili landsins til upphitunar.