Ef marka má þróun síðustu viku gæti Ungverjaland tekið við af Grikklandi og Ítalíu sem forsíðuefni evrópskra viðskiptablaða á næstunni. Gengi ungversku forintunnar náði nýrri lægð gagnvart evrunni í vikunni vegna vaxandi ótta fjárfesta um að viðræður við alþjóðlega kröfuhafa geti runnið út í sandinn.

Þá eru auknar líkur taldar á því að samdráttur verði í ungversku efnahagslífi á þessu ári.

Skuldatryggingarálag á ungversk ríkisskuldabréf hefur rokið upp og náði 6,88 prósentustigum um tíma í vikunni. Ávöxtunarkrafa á ungverskum bréfum fór einnig yfir 10%.

Viðræður við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eiga að hefjast í Washington í næstu viku, en óvíst er hvort samkomulag næst um fjárhagslega aðstoð.