Matsfyrirtækið Moody's hefur fært lánshæfismat Ungverjalands niður í ruslflokk. Moody's er þriðja matsfyrirtækið til að skella landinu niður í þennan neðsta flokk í einkunnaskalanum. Ungverjaland er ekki eitt á botninum því matsfyrirtækið Fitch setti Portúgal niður í sama flokk í gær.

Lánshæfiseinkunnir landsins fyrir innlendar og erlendar skuldbindingar landsins eru nú með lánshæfiseinkunnina Ba1 en var áður Baa3. Horfur í Ungverjalandi eru neikvæðar, að mati Moody's.

Ungverjar leituðu í síðustu viku á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir aðstoð við að ná ríkisrekstrinum á réttan kjöl.