Ríkisstjórn Ungverjalands á nú í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ESB um efnahagslega aðstoð, að því er ungversk stjórnvöld segja. Ungverjaland fékk lán frá AGS árið 2008, en ákvað að hætta samstarfi við sjóðinn í fyrra.

Er um að ræða fremur skarpan viðsnúning á stefnu ungversku ríkisstjórnarinnar, en fyrir aðeins einni viku sagði efnahagsráðherrann, Gyorgy Matolcsy, að „þessi þriggja stafa stofnun er á móti öllum okkar ákvörðunum.“

Gengi ungversku forintunnar hefur hins vegar sjaldan verið jafn veikt gagnvart evrunni og nú og ávöxtunarkrafan á ungversk ríkisskuldabréf hefur hækkað mjög. Þá hafa tvö matsfyrirtæki varað við því að ófyrirsjáanleg hagstjórn og lélegur hagvöxtur geti leitt til þess að lánshæfiseinkunn ungverska ríkisins verði lækkuð í ruslflokk.

Meðal þess sem ríkisstjórn Ungverjalands hefur gert frá árinu 2008 er að hækka til muna skatta á banka þar í landi og í raun þjóðnýtt lífeyrissjóði í landinu.

Talsmaður AGS segir að fulltrúar sjóðsins séu staddir í Ungverjalandi til að afla sér upplýsinga en ekki til að hefja viðræður, enda hafi ekki komið fram beiðni frá ungverskum stjórnvöldum um slíkt.