Neytendavörurisinn Unilever hefur ákveðið að taka yfir Seventh Generation Inc., félag sem sérhæfir sig í framleiðslu á vistvænum hreinsiefnum. Þetta kemur fram á fréttaveitu Bloomberg.

Seventh Generation seldi fyrir rúmlega 200 milljónir Bandaríkjadala í fyrra og hefur vaxið hratt á undanförnum árum. Unilever hefur ekki gefið út hversu mikið félagið muni þurfa að greiða fyrir yfirtökuna, eða hvernig hún muni fara fram.

Ein þekktustu vörumerki Unilever eru m.a. Cif, Persil, Knorr, Dove og Vaseline. Með yfirtökunni á Seventh Generation er markmiðið þó að auka framboð á vistvænum hreinsiefnum, en eftirspurn eftir þeim hefur aukist umtalsvert.

Gengi bréfa í Unilever hefur hækkað um rúmlega 1% í dag fer hver hlutur á rúmlega 45 Bandaríkjadali. Árið 2015 störfuðu alls 172.000 manns hjá Unilever og námu tekjur félagsins rúmlega 53 milljörðum Bandaríkjadala.