Japanska fataverslunarkeðjan Uniqlo telur sig geta skotið vestrænum samkeppnisaðilum, líkt og H&M og Zara, ref fyrir rass á tímum kórónuveirunnar með því að einblína í auknum mæli á kínverskan markað og opnanir nýrra verslana þar í landi.

Telur Uniqlo að með því að sækja á markaði í sívaxandi borgum í Asíu myndist fjöldi möguleika, en fyrrnefndir samkeppnisaðilar hafa boðað töluverða fækkun verslana á alþjóðavísu.

„Þetta gæti loks verið vendipunktur þar sem blómaskeið verslunar færist frá vestrænum markaði yfir á þann asíska,“ segir Tadashi Yanai, forstjóri Uniqlo í frétt WSJ. Þá bætir hann við að markmið Uniqlo sé hvorki meira né minna en að verða vinsælasta fatamerki í heimi.