Hlutabréfaverð United Airlines hefur lækkað mikið í eftirmarkaðsviðskiptum síðan myndbönd fóru á flug á samfélagsmiðlum sem sýndu öryggisverði draga lækni úr sæti sínu þrátt fyrir mótmæli.

Myndbandið birtist á samfélagsmiðlum á mánudag en á sunnudag gerðist það á Chicago flugvelli að fjórum farþegum var vísað frá borði til að koma fyrir starfsmönnum flugfélagsins.

Bréfin hækkuðu í viðskiptum mánudag

Bréf félagsins höfðu hækkað eilítið á mánudag, en síðan þá hafa bréfin lækkað um 6% í viðskiptum utan markaðar að því kemur fram í frétt CNN , en kauphöllinn í New York opnar fyrir viðskipti eftir um klukkutíma.

Einn farþeganna sem höfðu verið valdnir af handahófi neitaði að fara frá borði með þeim rökum að hann væri læknir sem þyrfti að sinna sjúklingum daginn eftir.

Bauðst afsökunar á „endurröðun“ viðskiptavina

Margir farþegar tóku myndbönd af atvikinu en farþeginn var dreginn eftir gólfi flugvélarinnar og hljóp loksins aftur í sæti sitt blóðugur í framan.

Mikil reiði hefur farið um samfélagsmiðla vegna málsins og þurfti forseti flugfélagsins, Oscar Munoz að gefa út afsökunarbeiðni fyrir að hafa þurft að „endurraða viðskiptavinum“ eins og hann orðaði það.