Bandaríska flugfélagið United Airlines er enn ekki farið að rétta við eftir 29 mánaða rekstur undir gjaldþrotameðferðarákvæðum Chapter 11. Nú í vikunni var lagt fyrir dómstóla áætlun sem felur í sér að starfsmenn félagsins munu missa um fjórðung af eftirlaunagreiðslum sínum. Greint er frá þessu á þjónustusíðu Business Telegraph.

United Airlines, sem er næst stærsta flugfélag heims, vill að lífeyristryggingar ríkisins (The Pension Benefit Guaranty Corporation) taki yfir aðgerðaráætlun vegna umfangsmestu vanskila á lífeyrisgreiðslum í sögu Bandaríkjanna. Um 9,8 milljarða dollara (635 milljarða króna) mun vanta til að standa við eftirlaunaskuldbindingar starfsmanna, en af því mun ríkið ábyrgjast greiðslur á 6,6 milljörðum dollara. Forsvarsmenn flugfélagsins segja að með því að The Pension Benefit Guaranty Corporation (PBGC) taki alfarið yfir eftirlaunaskuldbindingar félagsins muni það spara því 4,4 milljarða dollara á sex ára tímabili.

Flugþjónar og flugfreyjur félagsins sem áður höfðu samþykkt launalækkun og afsal á ýmsum fríðindum, hafa nú hótað að fara í verkfall þrátt fyrir viðvaranir félagsins um að slík aðgerð sé ólögleg og muni leiða til uppsagna viðkomandi starfsmanna.

Í gær áttu að hefjast fundir um hvort félagið geti náð fram launalækkunum hjá vélvirkjum og öðrum starfsmönnum á jörðu niðri. Flugfélagið hefur þegar barið í gegn samninga um launalækkun til handa flugmönnum.

Þá hefur PBGC þegar varpað fyrir róða tillögum United Airlines sem leitt hefðu til nýrra eftirlaunasamninga við starfsmenn félagsins á jörðu niðri. Þær hefðu að mati verkalýðsfélaga þýtt að hlaðmenn, tæknimenn og aðrir starfsmenn á jörðu niðri hefðu ekki tapað neinu af uppsöfnuðum vanskilum. Fossvarsmenn PBGC segjast ekki viljað samþykkja slíkar tillögur þar sem þær kunni að skapa slæmt fordæmi fyrir önnur fyrirtæki.

Fleiri flugfélög berjast við mikinn vanda og keppinauturinn Delta Air Lines hefur sagt að líklega verði um verulegt tap að ræða hjá því félagi á yfirstandandi ári. Þar á bæ hefur verið varað við því að svo kunni að fara að félagið verði lýst gjaldþrota ef fjárinnstreymi minnkar of mikið eða ef stórir kröfuhafar krefjist tafarlaus uppgjörs