Breska matvöruverslunarkeðjan Somerfield sagði í gær að samkeppnisaðlinn United Co-op hafi hætt yfirtökuviðræðum við félagið. Tveir aðrir hugsanlegir kaupendur eiga enn í viðræðum við Somerfield um að kaupa félagið á rúman milljarð punda, eða 205 pens á hlut. Eftir stendur hópur fjárfesta, sem myndaður er af Baugi, fasteignajöfrinum Robert Tchenguiz, fjárfestingasjóðnum Apax og breska bankanum Barclays, og fjárfestingafyrirtæki í eigu bræðranna Ian og Robert Livingstone.

Breska fréttaskrifstofan Reuters hefur eftir heimildamanni sínum að United Co-op hafi ákveðið að bjóða ekki í Somerfield vegna samdráttar í smásölu í Bretlandi, þrátt fyrir að félagið telji Somerfield gott fyrirtæki. Sérfræðingar í London telja einnig að United Co-op hafi ekki átt mikla möguleika á að kaupa Somerfield og að Baugshópurinn sé líklegur til þess að hreppa hnossið.