Lokið hefur verið við samruna rússnesku fyrirtækjanna OAO Rusal, Sual og hins svissneska Glencore AG, en við samrunann verður til stærsti álframleiðandi heims sem ber heitið United Company Rusal, segir í frétt Dow Jones.

Heildarsala sameinaðs fyrirtækisins á ársgrundvelli nemur 795 milljörðum króna og framleiðir það fjórar milljónir tonna af áli og 11 milljónir tonna af súráli á ári. Fyrirtækið hefur yfir að ráða fjórum báxítnámum, tíu álhreinsunarstöðvum og 14 bræðsluofnum. Starfsemi og eignir fyrirtækisins eru staðsettar í 17 löndum í fimm heimsálfum og starfa um 100 þúsund manns hjá fyrirtækinu.

Greint var frá samrunanum í október síðastliðnum og hefur því tekið nærri sex mánuði að vinna úr samkeppnisálitamálum og öðrum málum sem komu upp við samrunann. Stjórnarformaður Sual, Viktor Vekselberg, mun taka við stjórnarformannsstöðu sameinaðs fyrirtækisins. Framkvæmdarstjóri Rusal, Alexander Bulygin, mun taka við sömu stöðu í nýja fyrirtækinu, en Rusal er það stærra af rússnesku fyrirtækjunum tveimur.

Auðkýfingurinn Oleg Deripaska mun taka sæti í stjórn fyrirtækisins, en eignarhaldsfélag hans, Basic Element, mun ráða yfir 64% hlut í fyrirtækinu, en Deripaska var einnig stjórnarformaður Rusal. Þrír aðrir úr Basic Element munu taka sæti í stjórninni ásamt meðeiganda lögfræðifyrirtækis sem hefur þjónustað Rusal í gegnum tíðina. Len Blavatnik, forstjóri Access Industry, sem var minnihlutaeigandi í Sual, mun einnig taka sæti ásamt framkvæmdarstjóra Glencore, Ivan Glasenberg. Tveir óháðir aðilar hafa verið skipaðir í stjórnina og mun sá þriðji bætast við í júnílok.