Bandaríska risaflugfélagið United Continental, sem er stærsta flugfélag heims eftir sameiningu United Airlines og Continental Air, á nú í viðræðum við evrópska flugvélaframleiðandann Airbus um möguleg kaup á nýjustu vél framleiðandans A350 sem nú er á framleiðslustigi.

Samkvæmt frétt Bloomberg fréttaveitunnar íhugar United kaup á stærstu útgáfu vélarinnar, A350-1000 í þeim tilgangi að skipta henni út fyrir Boeing 747-400 breiðþotunnar. United hefur þegar undirritað samning um kaup á 25 vélum af A350-900, sem er minni útgáfa af vélinni. Sá samningur var undirritaður árið 2009 en á sama tíma samdi United við bandaríska framleiðandann Boeing um kaup á 25 Boeing 787 Dreamliner vélum (félagið hefur þegar fengið tvær Dreamliner vélar afhentar).

Hvorki United né Airbus hafa viljað staðfesta fréttir um að viðræður eigi sér stað um kaup á A350-1000 vélinni.

Í stuttu máli má segja að Unites sé að leita sér að stórri tveggja hreyfla breiðþotu sem getur tekið um 350 eða fleiri farþega í sæti. Airbus A350 vélin verður mun sparneytnari en Boeing 747-400, enda bara tveggja hreyfla, en þá mun United einnig vera að kanna möguleika á kaupum á Boeing 777, sem er stærsta tveggja hreyfla vél Boeing í dag.

Boeing vinnur nú að frekari þróun, eða öllu heldur hönnun, á Beoing 777 vélinni undir vinnuheitinu Boeing 777-X. Ef vel tekst til við frekari hönnun á henni kann hún að verða vel samkeppnishæf við A350 vél Airbus. Þá gæti Boeing 777-300ER tekið svipaðan fjölda í sæti og Airbus A350-1000.

Tölvulíkan af Airbus A350-1000.
Tölvulíkan af Airbus A350-1000.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Tölvulíkan af Airbus A350-1000.

Líkan af Airbus A350XWB.
Líkan af Airbus A350XWB.
© Gísli Freyr Valdórsson (VB MYND/GFV)

Líkan af farþegarými Airbus A350XWB (Mynd: Gísli Freyr Valdórsson)