Sagt var frá því í síðustu viku að bandaríska flugfélagið United Airlines tilkynnti á þriðjudag að það hygðist panta 270 flugvélar: þar af 200 Boeing 737 MAX 10 vélar en restina Airbus A321neo.

Kaupin eru þau stærstu í sögu félagsins, ásamt því að vera þau stærstu í Bandaríkjunum í áratug. Kaupverðið var ekki gefið upp í tilkynningu um kaupin, en það er talið nema yfir 30 milljörðum dala, ígildi hátt í 4 þúsund milljörðum króna.

Flugfélagið hyggur á stóraukin umsvif, eins og gefur að skilja, og beinir sjónum sínum aðallega að stórum millilendingavöllum á ströndum Bandaríkjanna á borð við San Fransisco og New Jersey, auk Denver, Chicago og fleiri valla. Stefnt er að 4-6% árlegum vexti næstu árin.

Vélarnar, sem eru þær stærstu sinnar tegundar, verða útbúnar með rúmgóðum sætum og innbyggðu afþreyingakerfi aftan á sætum, sem er viðsnúningur frá fyrri stefnu félagsins.