Forsvarsmenn United Silicon vilja ekki tjá sig efnislega um fyrirmæli Umhverfisstofnunar fyrr en þeir hafa farið yfir bréf stofnunarinnar um þær endurbætur sem þurfi að gera áður en starfsemi heldur áfram. Kristleifur Andrésson, umhverfis- og öryggisstjóri United Silicon, sagði í morgun í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins að hann liti þannig á að verksmiðjunni hafi ekki verið lokað þó að vandkvæði væri á ofninum. Kristleifur sagði enn fremur að 85 starfsmenn fyrirtækisins haldi áfram vinnunni og þannig verði það svo lengi sem að verksmiðjan sé enn starfandi.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær tók Umhverfisstofnun ákvörðun um að stöðva starfsemi United Silicon. Fyrirtækinu var kynnt sú ákvörðun með bréfi í gærkvöldi. Forstjóri Umhverfisstofnunar sagði í samtali við Viðskiptablaðið í gærkvöldi að United Silicon geti ekki hafið rekstur fyrr en að loknum fullnægjandi endurbótum. Þegar hún var spurð út í það hvað slíkar endurbætur gætu tekið langan tíma svarar Kristín Linda: „Við höfum ekki góða tilfinningu fyrir slíku. Það er fyrst og fremst rekstraraðila að svara fyrir um slíkt. Við vitum þó til þess að þeir eru að vinna úrbótaáætlun“.

„Svona er lífið“

Kristleifur Andrésson, umhverfis- og öryggisstjóri United Silicon, sagði í gærkvöldi  í samtali við mbl.is að forsvarsmenn United Silicon myndu fara yfir bréfið frá Umhverfisstofnun og bregðast við því eftir helgi. Hann tók enn fremur fram að fyrirtækið þyrfti að gera ákveðnar endurbætur á kísilmálmverinu í Helguvík og svo verður reksturinn aftur settur af stað. Hann gat þó ekki sagt til um tímann sem taki að vinna að úrbótum sem krafist er að hálfu Umhverfisstofnunar.

Þegar mbl.is spurði Kristleif út í hvort að forsvarsmenn United Silicon væru óánægðir með ákvörðun Umhverfisstofnunar svaraði hann: „Við kommentum ekki einu sinni á það. Svona er lífið“.

Hugnast ákvörðunin vel

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sagði í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins að bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ hugnist vel ákvörðun Umhverfisstofnunar að stöðva starfsemi United Silicon. Eins og Viðskiptablaðið hefur áður sagt frá samþykkti bæjarráð Reykjanesbæjar samhljóða bókun þar sem kallað er eftir því að rekstur kísilmálmverksmiðju United Silicon yrði stöðvaður á meðan unnið er að endurbótum.

Í þeirri bókun kom fram að hluti íbúa Reykjanesbæjar hafi ítrekað orðið fyrir verulegum óþægindum og vanlíðan vegna mengunar frá verksmiðjunni. Þetta staðfesti Kristín Linda, forstjóri Umhverfisstofnunar í samtali við Viðskiptablaðið í gær, en hún sagði að verulegur fjöldi kvartana hafi borist stofnuninni frá því að rekstur kísilmálmverksmiðunnar hófst. Kvartanir vegna lyktar voru umfangsmestar en jafnframt hafi sumir lýst ýmsum líkamlegum einkennum samfara lyktinni. Kristín sagði að það höfðu borist tæplega 1.000 kvartanir frá íbúum Reykjanesbæjar.