Samkvæmt úrskurði gerðardóms þarf United Silicon að greiða Íslenskum aðalverktökum (ÍAV) rúmlega einn milljarð króna vegna ógreiddra reikninga. Krafa ÍAV hljóðaði upp á tvo milljarða króna í heildina þegar dráttarvextir höfðu verið teknir með, en félagið lagði fram 1,1 milljarða reikning vegna framkvæmda við kísilverksmiðju félagsins við Helguvík.

Auk þess hafði verktakinn gert bótakröfu á hendur United Silicon vegna riftunar á samningi um að ÍAV kæmi að framkvæmdum á öðrum og þriðja áfanga byggingar kísilversins að því er Fréttablaðið greinir frá.

ÍAV hafði verið aðalverktaki kísilversins en Sigurður R. Ragnarsson forstjóri ÍAV boðaði í júlí í fyrra þegar starfsmenn fyrirtækisins hættu störfum við uppbyggingu versins að meintar vanefndir United Silicon færu fyrir gerðardóm. Taldi Sigurður að eigendur United Silicon ættu ekki fyrir framkvæmdinni og að stærstur hluti reikninga fyrirtækisins væru gjaldfallnir.

Í ágúst í fyrra sagði Magnús Garðarsson, stærsti eigandi United Silicon og þáverandi stjórnarformaður að deilan hefði tafið uppbyggingu kísilversins um tvær vikur.