*

miðvikudagur, 21. ágúst 2019
Innlent 21. desember 2017 13:31

United Silicon þyrfti 3 milljarða

Norskir sérfræðingar segja hönnun ofns kísilverksmiðjunnar góða en ódýr og óvandaður jaðarbúnaður sé orsök mengunar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Til að hægt sé að uppfylla kröfur Umhverfisstofnunar um úrbætur á kísilmálmverskmiðju United Silicon er talið þörf á fimm milljónum evra til viðbótar í fyrirtækið að því er Fréttablaðið greinir frá.

Það jafngildir um 628 milljónum íslenskra króna, en því til viðbótar leggur norska ráðgjafafyrirtækið Multiconsult til að 20 milljón evra, eða sem samsvarar 2,5 milljörðum króna verði varið í verksmiðjuna svo hún teljist fullkláruð.

Þetta er mat norska fyrirtækisins sem gert hefur úttekt á búnaði verksmiðjunnar fyrir stjórn og kröfuhafa fyrirtækisins. Á nýju ári hyggst stjórnin ganga til viðræðna við mögulega kaupendur að verksmiðjunni, en tæplega tíu aðilar eru taldir vera mögulegir kaupendur að henni.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint ítarlega frá stöðvaði Umhverfisstofnun rekstur verksmiðjunnar eftir miklar kvartanir um mengun en ný stjórn var skipuð yfir félagið í kjölfar þess að kröfuhafar tóku það yfir og kærðu fyrrverandi forstjóra.

Karen Kjartansdóttir, talsmaður United Silicon segir að fjármagnsþörf fyrirtækisins hafi verið vanreiknuð frá upphafi. Hún segir hins vegar að grunnhönnun ofns verksmiðjunnar sé góð en augljóst sé að ódýr og óvandaður jaðarbúnaður sé orsök tíðra bilana sem skapaði framleiðslunni erfiðleikum sem og tíðri lyktarmengun.