Stjórn United Silicon vinnur nú hörðum höndum að endurskipulagningu rekstrar félagsins í samvinnu við kröfuhafa þess að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Þar segir að fjárhagserfiðleikar félagsins séu fyrst og fremst afleiðing rekstrarerfiðleika í verksmiðju félagsins sem rekja má til endurtekinna bilana í búnaði sem hefur valdið félaginu miklu tjóni. Einnig er tekið fram að á greiðslustöðvunartíma verður unnið að frekari greiningum á tæknilegum úrlausnarefnum, áætlunum um úrbætur og nauðsynlegum endurbótum.

Bent er á að heimsmarkaðsverð á kísilmálmi fari hækkandi og að eftirspurn eftir kísilmálmi hafi aukist. „Framtíðarhorfur rekstrarins eru því góðar, að því tilskyldu að takist að endurskipuleggja reksturinn og fjármagna nauðsynlegar endurbætur,“ segir í tilkynningunni. Eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá þá kom fram í bréfi Umhverfisstofnunar að endurræsing á ofni kísilmálmverskmiðjunnar væri óheimil fyrr en að loknum fullnægjandi endurbótum og ítarlegu mati á þeim.

Taka ábyrgðinni alvarlega

„Stjórn félagsins tekur alvarlega þá miklu ábyrgð sem fylgir því að reka starfsemi sem þessa og vill gera það í góðri sátt við nærsamfélagið og eftirlitsaðila og í samræmi við ákvæði laga og starfsleyfis,“ er einnig tekið fram í tilkynningunni. Stjórn félagsins mun á næstu mánuðum vinna að endurskipulagningu rekstrar til að tryggja rekstrarhæfni félagsins til frambúðar. Í því samhengi leggur stjórnin áherslu á að tryggja hagsmuni kröfuhafa félagsins, starfsfólks þess og hag sveitarfélagsins af tekjum af rekstri félagsins. Hluti þess verkefnis er að tryggja félaginu fjármagn til að ráðast í allar nauðsynlegar úrbætur til að bæta rekstur verksmiðju félagsins.

Ákvörðun UST kallar á enn frekari greiningu á mögulegum úrbótum og tímasetta áætlun um þær að sögn forsvarsmanna United Silicon. Norska verkfræðiráðgjafastofan Multiconcult hefur unnið með félaginu frá því síðasta vor og mun halda áfram að vera lykilráðgjafi félagsins í endurbótaferli næstu mánaða. Multiconsult fékk Norsku loftgæða­rann­sókna­stofn­un­ina (NILU) til liðs  til að rannsaka og greina útblástur frá verksmiðjunni og mun það starf halda áfram.