Eignarhlutur Davíðs Helgasonar í Unity Software er metinn á 50-60 milljarða króna samkvæmt verðbili útboðs Unity. Skrá á Unity á markað í kauphöllinna New York. Í gær gaf Unity út að selja eigi 25 milljónir hluta í Unity á genginu 34 til 42 dollara á hlut. Félagið stefnir því á að sækja sér um einn milljarð dollara í hlutafjárútboðinu, jafnvirði um 140 milljaðra króna.

Samkvæmt frétt Reuters um málið er Unity metið á um 11 milljarða dollara, jafnvirði um 1.500 milljarða króna. Í fjármögnunarumferð félagsins á síðasta ári var Unity metið á um 6 milljarða dollara , eða sem nemur um 820 milljörðum króna.

Sjá einnig: Hlutur Davíðs tugmilljarða virði?

Til að setja það í samhengi er Marel, langsamlega verðmætasta félagið í íslensku kauphöllinni, metið á um 560 milljarða króna.

Davíð stofnaði Unity í Danmörku árið 2004 ásamt tveimur öðrum. Félagið býr til hugbúnað sem mikill fjöldi tölvuleikja byggir á, sér í lagi fyrir snjallsíma. Bent er á í skráningarlýsingu félagsins að meirihluti af þúsund vinsælustu tölvuleikjum App Store og Google Play síðasta árið sem hafa byggt á hugbúnaði Unity. Árið 2019 voru leikirnir sóttir í um 3 milljarða skipta á meira en 1,5 milljarða tækja.

Davíð á 10,4 milljónir hluta í félaginu og mun eiga 4% hlut í félaginu að útboðinu loknum, sem munu vera, um 350-440 milljóna dollara virði, eða sem samsvarar um 50-60 milljörðum króna.