Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um lækkaði hlutabréfaverð hugbúnaðarfyrirtækisins Unity Software verulega á fyrri helmingi ársins eða meira en 70%. Hlutabréf Unity, sem Davíð Helgason stofnaði og á ríflega 3% hlut í, hafa þó rétt aðeins úr kútnum en gengi félagsins hefur hækkað um 80% síðastliðinn mánuð.

Hækkunina má meðal annars rekja til samrunatilboðs fyrirtækisins AppLovin sem stjórn Unity, sem Davíð situr í, er með til skoðunar. Tilboðið, sem tilkynnt var um fyrir opnun markaða á þriðjudaginn, felur í sér að hluthafar Unity eignist 55% af hlutafé sameinaðs félags.

Unity er metið á 17,5 milljarða dala í tilboðinu eða 58,85 dali á hlut, sem er 18% yfir lokagengi Unity á mánudaginn. Gengi Unity hefur síðan hækkað um 17,5% og stóð í 58,47 dölum við lokun markaða á föstudaginn.

Davíð á ríflega 9,15 milljónir að nafnverði eða um 3,1% hlut í Unity. Eignarhlutur Davíðs er því metinn á nærri 73 milljarða króna. Verði tilboðið samþykkt mun Davíð fara með 1,7% hlut í sameinuðu félagi.

Óvíst hvað stjórnin gerir

Hægt hefur á vexti tölvuleikjabransans eftir að áhrifum Covid-faraldursins fór að linna. Þá hefur hægt verulega á vexti í stafræna auglýsingageiranum sem bitnar á tölvuleikjum sem reiða sig á auglýsingar fremur en sölu á stafrænum varningi.

Unity, þróar hugbúnað sem fjölmargir tölvuleikir byggja á, tilkynnti á þriðjudaginn að tekjur félagsins á öðrum ársfjórðungi hafi numið 297 milljónum dala, eða um 40 milljörðum króna, sem er 9% hækkun á milli ára. Til samanburðar hefur árlegur tekjuvöxtur Unity verið yfir 36% á öllum ársfjórðungum frá skráningu félagsins á markað haustið 2020.

Sjá einnig: Unity segir upp meira en 200 manns

Greinandi hjá Wedbush Securities, Michael Pachter, sagði við Reuters að verðlagning AppLovin á Unity væri undir innra virði fyrirtækisins og á því von á að Unity hafni tilboðinu. Mike Hickey, greinandi hjá Benchmark, ráðgjafafyrirtæki sem telur markaðsverð hlutabréfa Unity of hátt, sagði við Wall Street Journal að AppLovin „sé reiðubúið að borga hátt verð fyrir fyrirtæki sem á í erfiðleikum“.

Þá ber einnig að nefna að yfirtökutilboð AppLovin krefst þess að Unity falli frá kaupum á ironSource, keppinaut AppLovin, sem tilkynnt var um fyrir rúmum mánuði síðan. IronSource var metið á 4,4 milljarða dala í tilboðinu sem felur í sér að hluthafar fyrirtækisins eignist 26,5% hlut í Unity.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.