Hugbúnaðarfyrirtækið Unity Software, sem Davíð Helgason stofnaði, hefur hækkaði um 30% frá því opnað var fyrir viðskipti með bréf félagsins í kauphöllinni í New York. Gengi bréfa félagsins stendur nú í 68 dollurum á hlut en útboðsgengi félagsins nam 52 dollurum á hlut. Í allra fyrstu viðskiptum dagsins fór gengið yfir 75 dollara á hlut sem er hækkun um yfir 46%.

Þó hafði útboðsgengið verið hækkað ítrekað síðustu daga. Upphaflega stóð til að verðbilið í útboðinu yrði 34-42 dollarar, samkvæmt gögnum sem félagið gaf út í fyrir ríflega viku . Bréf félagsins eru því tvöfalt verðmætari en neðra bil upphaflegs útboðsgengis.

Í vikunni greindi fjölmiðlar vestanhafs frá því að stjórnendur Unity hefðu tekið fram fyrir hendur á fjárfestingabönkum sem sölutryggðu útboðið og ætluðu sjálfir að ákveða verðbil útboðsins. Í kjölfarið var verðbilið hækkað í 44 til 48 dollara á hlut. Í gær var svo greint frá því að verðið yrði enn hærra, eða 52 dollarar á hlut.

Hlutur Davíðs nærri 100 milljarða virði

Unity er sem stendur metið á tæplega 18 milljarða dollara en í fjármögnunarumferð félagsins á síðasta ári var það metið á um 6 milljarða dollara.

Davíð Helgason á 10,4 milljónir hluta í félaginu eða sem samvarar 4% hlut í félaginu. Eignarhlutur Davíðs í Unity nemur því um 700 milljónum dollara, þegar þetta er skrifað, eða sem samsvarar um 96 milljörðum króna.

Davíð er einn af þremur stofnendum Unity. Það hefur aldrei skilað hagnaði en hugbúnaður félagsins er nýttur víða. Meirihluti af þúsund vinsælustu tölvuleikjum App Store og Google Play síðasta árið byggja á hugbúnaði Unity. Þá notuðu átta af tíu stærstu arkitekta-, verkfræði- og hönnunarfyrirtækjum heims hugbúnað Unity sem og níu af tíu stærstu bílafyrirtækjum heimsins.