Tæknifyrirtækið Unity Technologies er metið á 6 milljarða dollara eða því sem nemur um 730 milljörðum íslenskra króna samkvæmt frétt TechCrunch. Til samanburðar er markaðsvirði Marel um 455 milljarðar króna og Össurar um 340 milljarðar. Fyrirtækið tilkynnti í gær að skrifað hafi verið undir samkomulag við fimm fjárfestingasjóði, þar á meðal Sequioa Capital, um að fjármagna 525 milljóna dollara fjárfestingu sem myndi gera núverandi hluthöfum félagsins, sem í dag að stórum hluta fyrrverandi og núverandi starfsmenn, kleift að selja hlut sinn í fyrirtækinu.

Þá staðfesti Unity einnig að fyrirtækið hefði lokið 150 milljóna dollara fjármögnunarumferð í maí á þessu ári sem hafi tvöfaldað verðmæti þess sem er nú um 6 milljarðar dollara. Viðskiptablaðið greindi frá því árið 2017 að félagið væri metið á 2,8 milljarða dollara eftir að hafa lokið 400 milljóna dollara fjármögnunarumferð þar ár. Sú umferð var leidd af fjárfestingarsjóðnum Silver Lake sem er einn þeirra sjóða sem lagt hafa fram tilboðið nú.

Unity var stofnað í Danmörku árið 2003 og var Davíð Helgason einn af þremur stofnendum fyrirtækisins og starfaði sem forstjóri þess í nær 12 ár en situr í dag í stjórn félagsins. Davíð sagði í viðtali við Viðskiptablaðið frá því í fyrra að hann hefði fjárfest í yfir 50 sprotafyrirtækjum víða um heim.

Unity framleiðir verkfæri fyrir framleiðendur tölvuleikja sem eru notuð fyrir allar gerðir tölvuleikja allt frá leikjum fyrir snjallsíma, tölva og leikjatölva. Samkvæmt fyrirtækinu eru um helmingur allra tölvuleikja sem framleiddir eru í dag gerðir með leikjavél Unity. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar sínar í San Francisco og er með um 2.000 starfsmenn.

Greint var frá því í febrúar á þessu ári að Unity stefndi á skráningu á hlutabréfamarkað á fyrri helmingi næsta árs. Samkvæmt  TechCrunch þykja fréttir gærdagsins hins vegar gefa til kynna að fyrirtækið hyggist ýta þeirri tímalínu eitthvað aftur þar sem starfsfólki sem setið hefur á eignarhlut sínum hefur nú verið gert kleift að selja. Samkvæmt fréttinni er þetta hins vegar ekki í fyrsta sinn sem Unity safnar fjármagni til að gera fyrirtækinu kleift að kaupa eigin bréf af starfsfólki.