Hugbúnaðarfyrirtækið Unity hefur ákveðið að leggja niður 263 stöðugildi, eða sem nemur 4% af starfshópi fyrirtækisins. Unity staðfesti að yfir 200 manns hefði verið sagt upp en gerir ráð fyrir að fimmtíu starfsmenn geti fært sig í annað hlutverk innan samstæðunnar.

Forstjórinn John Riccitiello sagði starfsfólki sínu frá ákvörðuninni í pósti á miðvikudaginn. Nokkrum vikum áður hafði hann tjáð starfsmönnum að það stæði ekki til að ráðast í uppsagnir. Vice greinir frá.

Riccitiello, sem tók við forstjórastarfinu af Davíð Helgasyni árið 2014, segir í bréfinu að uppsagnirnar séu hluti af áframhaldandi ferli þar sem fyrirtækið reynir að skerpa á áherslum sínum.

„Við hófum þetta ferli ekki með það í huga að ákveða hversu mörg störf þyrfti að skera niður, en það leiddi að lokum til niðurskurðar hjá öllum fyrirtækjum [samstæðunnar],“ sagði Riccitiello. „Þess í stað fórum við í þessar uppsagnir til að skerpa á áherslum, fækka verkefnum og framtökum sem voru ekki að styðja við lykilsvið, og færa til starfsteymi þannig að þau skapi sem mestu verðmætin.“

Stór tæknifyrirtæki hafa sagt upp hundruð manns á síðustu misserum, m.a. vegna vaxandi verðbólgu og auknum ótta um efnahagssamdrátt. Þá hefur hlutabréfaverð tæknifyrirtækja lækkað hratt að undanförnu. Unity hefur ekki farið varhluta af þeirri þróun en gengi félagsins hefur fallið um meira en 70% frá áramótum.

Davíð Helgason, einn stofnenda og sitjandi stjórnarmaður hjá Unity, á 3,1% hlut í félaginu sem er um 346 milljónir dala að markaðsvirði eða sem nemur 48 milljörðum króna.