Danska tæknifyrirtækið Unity Technologies er verðmetið á 2,8 milljarða dollara eða um 280 milljarða íslenskra króna miðað við fjármögnunarumferð sem er á lokastigum samkvæmt frétt Wall Street Journal . Það er framtakssjóðurinn Silver Lake sem leiðir 400 milljóna dollara fjármögnunarumferðina.

Í viðtali Viðskiptablaðsins við Davíð Helgason árið 2014 kom fram að hann hefði stofnað fyrirtækið í Danmörku ásamt Dana og Þjóðverja. Hann var á þeim tíma forstjóri félagsins og stýrði 300 starfsmönnum og teygði starfsemi fyrirtækisins sig til 15 landa.

Davíð sem starfaði sem forstjóri í nær 12 ár frá árinu 2003 en situr í dag í stjórn félagsins.

Í frétt Wall Street Journal kemur einnig fram að Unity framleiðir verkfæri fyrir tölvuleikjaframleiðendur og þá sérstaklega hugbúnað sem gerir þeim kleift að skapa starfrænan heim sem hægt sé að gefa út á margvíslegum kerfum. Fyrirtækið segir að um þriðjungur allra ókeypis farsímaleikja séu byggðir á hugbúnaði frá Unity. Þar á meðal var leikurinn Pokemon Go sem um 500 milljón manns hlóðu niður á síðasta ári.

Tekjur fyrirtækisins hafa vaxið hratt og er gert ráð fyrir því að tekjur á árinu 2017 verði um 300 milljónir dollara sem er 40% tekjuaukning frá síðasta ári.