Hlutabréfaverð í tæknirisanum Unity Technologies, sem Davíð Helgason, stofnaði féllu um 14% á föstudaginn, daginn eftir uppgjör félagsins, þrátt fyrir að tekjur félagsins hafi aldrei verið meiri á einum fjórðungi og umfram spár greiningaraðila.

Tekjur félagsins jukust um 39% á fjórða ársfjórðungs í 220 milljónir dollara. Rekstrartap félagsins nam 81 milljón dollara eða 37% af tekjum miðað við 49 milljónir dollara, eða 31% af tekjum á sama fjórðungi fyrir ári.

Metið á 40 faldar árstekjur

Í greiningu D.A. Davidson kemur fram að það hafi ekki komið neitt augljóslega neikvætt fram í uppgjörinu samkvæmt frétt The Street . Hins vegar hafi afkomuspá félagsins fyrir árið 2021 ekki verið í samræmi við spá bjartsýnustu fjárfestanna og því hafi bréf félagsins fallið. Bloomberg Intelligence benti á að markaðsvirði félagsins fyrir uppgjörið hafi numið um 40 földum tekjum þess á þessu ári, sem sé töluvert umfram sambærileg félög. Unity gerði allt rétt á fjórða ársfjórðungi samkæmt greinendum Wedbush en „átti í vandræðum með að útskýra“ leiðina til vaxtar árið 2021.

Félagið býst við að tekjur vaxi um 23-26% á næsta ári og nemi 950 til 970 milljónum dollara miðað við 772 milljóna dollara tekjur á árinu 2020, en þó verður áfram tap á rekstrinum.

Markaðsvirði Unity féll úr um 40 milljörðum dollara í um 35 milljarða dollara á föstudaginn. Davíð Helgason á 4% hlut í félaginu.

Breytingar Apple kosta Unity

Tekjur félagsins byggja bæði á áskriftum og auglýsingatekjum, en auglýsingamarkaðurinn er þungur þessi misserin. Þá kann breyting Apple á persónuverndarstillingum, sem Viðskiptablaðið fjallaði nýlega um, að draga úr tekjum auglýsenda. Erfiðara verður fyrir þá að fylgjast með notkun eigenda iPhone síma og þar að leiðandi að sérsníða auglýsingar, sem auglýsendur eru tilbúnir að greiða meira fyrir.

Unity býst við að breytingin dragi úr tekjum félagsins um um það bil 30 milljónir dollara, eða um 30% af tekjum ársins 2021.