Bókaforlagið University of Chicago Press hefur ákveðið að gefa út bókina Hans Jónatan, maðurinn sem stal sjálfum sér. Bókin er eftir Gísla Pálsson, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, og kom út hjá Máli og menningu um jólin.

Bókaforlagið mun gefa bókina út í enskri þýðingu undir heitinu The Man Who Stole Himself.

Bókaforlag Chicago-háskóla er öflugt og gefur út fjölda fræðirita en einnig almennari bækur, eins og bókina um Hans Jónatan.

Í tilkynningu frá Háskóla Íslands segir þetta um bókina: "Sagan af Hans Jónatan, manninum sem stal sjálfum sér, hefur vakið töluverða athygli hérlendis. Hún fjallar um Hans Jónatan, ungan þeldökkan mann, þræl og stríðshetju frá Jómfrúreyjum, danskri nýlendu í Karíbahafi, sem settist óvænt að á Djúpavogi snemma á 19. öld. Þar kvæntist hann og gerðist verslunarmaður og bóndi. Gísli Pálsson leitaði svara við því hvers vegna Hans Jónatan kom til Íslands og hvernig landsmenn hafi brugðist við honum. Rannsókn Gísla fólst í því í að leita uppi þræðina í lífi Hans Jónatans og splæsa þá saman í ævisögu um manninn sem stal sjálfum sér. Verkefnið hefur meðal annars leitt í ljós, með nokkurri vissu, hver var faðir hans en það hefur verið mönnum ráðgáta í 230 ár. Móðir hans var aftur á móti þræll frá Afríku."